154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil bara halda til haga úttekt Seðlabankans á aðhaldsstigi ríkisfjármálanna. Það var metið 3% í fyrra, það hafi aukist um 3% í fyrra, um 1,3% því til viðbótar í ár og svo segir, svo ég leyfi mér að vitna beint í texta Seðlabankans:

„Á næsta ári er búist við því að heldur dragi úr afgangi á frumjöfnuði ríkissjóðs þrátt fyrir boðaðar aðhaldsaðgerðir í fjárlagafrumvarpi. Hins vegar dregur hraðar úr spennu í þjóðarbúinu og því eykst aðhald ríkissjóðs um 0,5% af landsframleiðslu.“

Þetta skiptir máli. Það er síðan rétt og ákveðið áhyggjuefni að við erum enn í halla og við eigum að stefna að því að loka fjárlagagatinu. En megum ekki tapa sjónum af því að hér er mikill hagvöxtur og með þessum mikla hagvexti eru skuldahlutföll ríkissjóðs að lækka. Skuldirnar eru að verða okkur léttari þrátt fyrir að við séum í þeim halla sem reiknast á fjárlögunum og að hluta til er sú reiknaða stærð í fjárlögunum byggð á reiknuðum stærðum eins og vöxtum vegna ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga.